Viðskipti innlent

Gríðarleg velta á skuldabréfum slær ýmis met í maí

Gríðarleg velta hefur verið á skuldabréfamarkaði það sem af er ári og hafa ýmis met fallið í maí. Í fyrsta lagi er veltan í maímánuði orðin sú mesta í sögunni en hún er komin yfir 684 milljarða kr..

Greining Kaupþings fjallar um málið í Hálf fimm fréttum sínum. Þar segir að enn eru tveir viðskiptadagar eftir í mánuðinum, ef fram heldur sem horfir fer hún hæglega yfir 700 milljarða kr. Áður hafði hún orðið hæst í einum mánuði í janúar s.l. þegar veltan nam tæpum 683 milljörðum króna.

Til að setja þessar tölur í samhengi við aðrar stærðir á íslenskum fjármálamarkaði þá hefur heildarvelta með hlutabréf mest orðið 528 milljarðar (júlí 2007) í einum og sama mánuðinum.

Þá er, í öðru lagi, heildarvelta skuldabréfa komin í 2.851 milljarð króna það sem af er ári sem er um 17% aukning miðað við allt árið 2007 - sem þó var veltumesta árið hingað til á innlendum skuldabréfamarkaði.

Ef aðeins er horft til sama tímabils í fyrra hefur velta á skuldabréfamarkaði fjórfaldast á milli ára. Margþættar skýringar eru fyrir líflegum viðskiptum með skuldabréf: Þar má nefna að aukin verðbólga og áhættufælni hafa aukið ásókn fjárfesta í verðtryggða ríkispappíra. Einnig má nefna að erlendir fjárfestar hafa komið af miklu afli inn í óverðtryggð ríkisbréf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×