Viðskipti innlent

Olíutunnan yfir 135 dali

Dropinn er dýrari en aldrei fyrr.
Dropinn er dýrari en aldrei fyrr.

Heimsmarkaðsverð á olíu náði nýjum hæðum í dag þegar tunnan fór yfir hundrað þrjátíu og fimm Bandaríkjadali. Hér heima hækkaði N1 síðdegis verð á bensíni og dísel hjá sér um tvær krónur.

Heimsmarkaðsverð á olíutunninni lækkaði reyndar aftur þegar leið á daginn og síðdegis var tunnan á rúma hundrað þrjátíu og tvo bandaríkjadali. En tunnan kostaði þá yfir helmingi meira en hún kostaði fyrir ári. Ástæða hækkananna nú eru áhyggjur af framboði af olíu en gengið hefur nokkuð á olíubirgðir Bandaríkjamanna.

Hækkandi olíuverð hefur margvísleg áhrif í för með sér en hækkanirnar reynast flugfélögum erfiðar. Þau keppast nú við að grípa til margvíslega ráðstafana til að mæta hækkunum svo sem með því að leggja á aukagjöld, sameina flug og draga úr sætaframboði.

American Airlines, sem er eitt stærsta flugfélag í heimi tilkynnti í gær að það myndi minnka sætaframboð sitt í innanlandsflugi um rúmlega tíu prósent, segja upp fjölda starfsmanna og byrja að taka gjald af farþegum fyrir að innrita farangur sinn.

Hér á landi hækkaði N1 síðdegis verð á bensíni og dísel hjá sér um tvær krónur. Bensínlíterinn í sjálfsafgreiðslu kostar þar nú tæpa 161 krónu og líterinn af dísel 178,6 krónur.

Þær upplýsingar fengust hjá öðrum olíufélögum í dag að verið væri að skoða hækkanir en ekki hefðu verið teknar slíkar ákvarðanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×