Viðskipti innlent

Tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum stóreykst

Tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum hefur stóraukist undanfarna mánuði samkvæmt gögnum frá Fasteignamati ríkisins. Með makaskiptasamningi er átt við kaupsamning þar sem hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að í október voru gerðir 50 makaskiptasamningar í fasteignaviðskiptum, sem nemur því 17% fasteignaviðskipta þann mánuðinn. Til samanburðar var þetta hlutfall 3,5% í október 2006 og 2% í október 2007.

Hlutfall makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum byrjaði að aukast um mitt þetta ár samhliða því sem framboð lánsfjár til fasteignakaupa byrjaði að þrengjast verulega.

Greiningin býst við því að makaskiptasamningum í fasteignakaupum muni enn fjölga á næstu mánuðum enda er það oft eina leiðin sem fær er til að skipta um húsnæði eða minnka við sig á tímum lausafjárþurrðar og kreppu. Getur þetta haft töluverð áhrif á verðmyndun á fasteignamarkaði, en við makaskipti er oft hagur beggja að skrá verð eignar sinnar hærra en ella væri.

Verðmunurinn milli viðeigandi eigna er í raun það sem skiptir mestu máli fyrir þá sem í viðskiptunum eiga frekar en verð hvorrar eignar fyrir sig. Hins vegar getur það auðveldað lánsfjármögnun að verðið sé tiltölulega hátt, þar sem flestar lánastofnanir hafa tiltekin hlutfallsmörk á lánsupphæð miðað við verð eignar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×