Viðskipti innlent

Vanskil aukast og innheimta erfiðari

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

„Það er ekkert leyndarmál að innheimta er erfiðari en áður. Það er miklu meira um að menn þurfi að semja um frest og kröfum fjölgar sem eru sendar til lögfræðings," segir Anna Sigríður Jóhannsdóttir, sviðsstjóri greiðendaþjónustu Intrum. Davíð Benedikt Gíslason, framkvæmdastjóri Momentum, segir að áþreifanlegust séu vanskil stærri fyrirtækja. „Við erum að sjá dæmi að fyrirtæki sem ekki hafa áður verið í lausafjárvandræðum eru komin í vanskil. Áður fyrr höfðu menn ekkert sérstakar áhyggjur þó að greiðslur drægust í einn til fjóra mánuði en nú er farið að herða á innheimtuferlunum því fyrirtækin eru jafnvel sjálf í vanskilum. Peningarnir verða að koma hraðar inn."

Róðurinn er að þyngjast hjá fyrirtækjum sem hefur gert það að verkum að innheimta hefur reynst erfiðari en áður. Slíkt hefur keðjuverkandi áhrif og nú virðist sem mörg fyrirtæki séu komin í vanda vegna lágs innheimtuhlutfalls og lausafjárskorts. „Við höfum orðið vör við að greiðslustaða fyrirtækja hafi breyst á undanförnum vikum og mánuðum þannig að fyrirtæki hafi verið að lengja greiðslufrest til sinna birgja. Hvort það sé tímabundið ástand eða hversu lengi það varir er ómögulegt um að segja segir Ágúst Jóhannesson, yfirmaður fyrirtækjasviðs KMPG. Þróunin hefur verið hröð og tala flestir um að vanskil hafi farið stigvaxandi frá áramótum, en hafi þó vaxið mest frá því í vor. Kröfur sem höfðu eindaga í júní fara að öllu jöfnu í innheimtu hjá lögfræðingum eftir verslunarmannahelgina. Það má því gera ráð fyrir að róðurinn eigi enn eftir að þyngjast með haustinu og að gjaldþrotum muni fjölga. Davíð telur að haustið verði erfitt fyrir fólkið í landinu: „Fólk sem hefur misst vinnuna, hefur velt sér áfram á yfirdráttum, sem getur ekki selt eignina sína og er jafnvel búið að veðsetja allt sitt, vandræði þeirra eiga eftir að aukast hratt í kjölfar fyrirtækjanna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×