Viðskipti erlent

Búðaþjófnaður eykst í Bretlandi - mest stolið af lærum hjá Iceland

Búðaþjónfaður hefur færst mjög í aukanna í Bretlandi á undanförnum mánuðum. Tilvikum hefur fjölgað um þriðjung það sem af er árinu. Vinsælast er að stela lambalærum í verslunarkeðjunni Iceland sem er að hluta til í eigu Baugs.

Í frétt um málið í The Financial Times (FT) segir að menn óttast að ástandið eigi enn eftir að versna eftir því sem harðnar á dalnum í bresku efnahagslífi.

Hjá Tesco-verslunarkeðjunni voru yfir 43.000 viðskiptavinir staðnir að búðaþjófnaði á fyrri helmingi ársins sem er 36% aukning frá sama tímabili í fyrra. Það sem vekur áhyggjur er að ekki er lengur verið að stela lúxusvörum í miklu magni heldur nauðsynlegum matvælum. Þetta bendir til að þjófnaðirnir stafi af nauð en ekki græðgi.

Fram kemur í spjalli FT við Duncan Miles yfirmann öryggisgæslu Iceland-verslananna að lambalæri sé vinsælasti hluturinn sem stolið sé úr verslunum þeirra. Þar á eftir fylgi ostur, beikon og kaffi.

"Það er mest stolið af lambalærum hjá okkur þar sem auðvelt er að koma þeim í verð á krám og veitingahúsum. Og fólk er alltaf á höttunum eftir kjöti," segir Miles.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×