Viðskipti innlent

Fá félög keypt og seld jafn oft og Sterling

Danska flugfélagið Sterling hefur skipt um eigendur fjórum sinnum á þremur árum. Pálmi Haraldsson hefur tvívegis átt það, FL Group einu sinni og Northern Travel Holding, eignarhaldsfélag í eigu Pálma og FL Group, einu sinni. Verðmæti félagsins jókst um sextán milljarða á 20 mánuðum.

Fá félög hafa verið keypt og seld jafn oft og danska lággjaldaflugfélagið Sterling sem varð gjaldþrota í gærkvöldi. Félagið komst fyrst í íslenskar hendur í mars 2005 þegar Fons, félag í eigu Pálma Haraldssonar, keypti það á fjóra milljarða.

Fons átti Sterling ekki lengi í það skiptið því FL Group keypti félagið sex mánuðum síðar á 14,6 milljarða. Í desember 2006 seldi FL Group svo Sterling til Northern Travel Holding, félags sem var í sameiginlegri eigu FL Group, Sunds ehf. og Fons. Verðmiðinn var 20 milljarðar króna.

Verðmæti Sterling jókst því um 16 milljarða á rúmu einu og hálfu ári.

Í ágúst síðastliðinn keypti Pálmi Haraldsson Stoðir (áður FL Group) út úr Northern Travel Holding og eignaðst því Sterling enn á ný. Kaupverðið var ekki gefið upp.

Síðustu daga leit út fyrir að Sterling myndi enn og aftur skipta um eigendur en kaupandi fannst ekki. Og í gærkvöldi óskaði félagið eftir því að vera tekið til gjaldþrotaskipta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×