Viðskipti innlent

Iceland Express hagræðir í stað þess að hækka verð

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

„Þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað um tæp 50 prósent á einu ári og verð á þjónustu hafi hækkað um 15 til 20 prósent á sama tíma hefur Iceland Express ekki hækkað verð á flugi til og frá Evrópu í sumar," segir í tilkynningu frá félaginu. Olíuhækkunin gerir það þó að verkum að fyrirtækið þarf að grípa til hagræðingaraðgerða og því var ákveðið að sameina flug.

„Í stað þess að fella niður flug sem voru tiltölulega lítið bókuð eða hækka verðið var ákveðið að hagræða með því að sameina 10 flug af þeim tæplega 100 sem Iceland Express flýgur í maí. Þannig var til að mynda flug frá London Stansted til Keflavíkur, sunnudaginn 18. maí, sameinað flugi frá París. Farþegar frá London höfðu því viðkomu í París á leið sinni til Íslands. Þetta þýddi að komutíma farþega frá London seinkaði um tæpar tvær klukkustundir en öllum farþegum Iceland Express sem gáfu upp réttar upplýsingar við bókun flugsins var gert viðvart með sms-skilaboðum og tölvupósti fyrirfram og boðið að breyta bókun sinni," segir í tilkynningunni.

Þá segir að engar aðrar breytingar séu fyrirhugaðar á flugi í sumar enda nánast fullbókað í öll flug yfir sumartímann.

„Það er okkur mikið í mun að halda verði til og frá Íslandi lágu," segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express. „Við leitumst því alltaf við að ná fram hagstæðum samningum svo ferðalangar geti ferðast um Evrópu á ódýran og öruggan hátt, nú sem endranær. Meðalverð á flugmiðum hefur ekki hækkað hjá okkur í meira ár þrátt fyrir að kostnaðurinn við reksturinn hafi hækkað verulega. Einhvern veginn verður þó að bregðast við og því ákváðum við að sameina flug í maí sem voru lítið bókuð, því eins og gefur að skilja er kostnaðarsamt að fljúga með hálffulla vél. Það hefur jafnframt mun minni röskun í för með sér en að hætta við flug og því vonum við að farþegar sýni okkur skilning" segir Matthías.

„Við vonum að þessar breytingar á flugi komi ekki til með að hafa mikil áhrif á ferðatilhögun viðskiptavina okkar. Við munum að sjálfsögðu láta alla vita, með sms og tölvupósti og þeir sem það kjósa geta þá gert breytingar á flugi sínu," segir forstjórinn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×