Viðskipti innlent

Icelandair Group tapaði 1,7 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi

Björgólfur Jóhannsson er forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson er forstjóri Icelandair Group.

Tap Icelandair Group eftir skatta var 1,7 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi 2008, en var 1,2 milljarðar króna á sama tíma í fyrra. Heildarvelta félagsins var 14 milljarðar króna og jókst um 18% frá sama tíma í fyrra.

EBITDA var neikvæð um 857 milljónir króna og EBIT var neikvæð um 1,7 milljarða króna, en þess má geta að afkoma félagsins er jafnan neikvæð á fyrsta fjórðungi vegna árstíðabundinna sveifla.

Eignir voru 73,8 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við 66,8 milljarða í lok árs 2007. Eiginfjárhlutfall var 34% og handbært fé frá rekstri var 3,1 milljarður króna.

„Rekstur Icelandair Group á fyrsta ársfjórðungi er nokkru betri en við gerðum ráð fyrir, í mun erfiðara árferði en á síðasta ári. Eldsneytiskostnaður félagsins hefur aukist um tæpan einn milljarð króna frá sama tíma 2007, auk þess sem að á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var færður til bókar tæplega 1,2 milljarða króna söluhagnaður eigna," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, í tilkynningu til Kauphallar Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×