Viðskipti innlent

Jón Þór segir að endanleg upphæð láns liggi ekki fyrir

Jón Þór Sturluson hagfræðingur.
Jón Þór Sturluson hagfræðingur.

Endanleg upphæð láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum liggur ekki fyrir. Þetta segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra og einn helsti ráðgjafi ráðherra Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, í samtali við Vísi.

Fullyrt er á vefsíðu breska blaðsins Financial Times að rætt sé um heildarlán upp að sex milljörðum bandaríkjadala. Einn milljarður komi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en norrænir seðlabankar og Seðlabanki Japans muni lána fimm milljarða.

Jón Þór segir að vissulega sé búið sé að stilla upp hvaða fjárþörf væri hér til að endurfjármagna bankakerfið, greiðsluhallan við útlönd og gjaldeyrisforða. „En það er enginn sem þorir að nefna þessar tölur, enginn ábyrgur maður í það minnsta," segir Jón Þór í samtali við Vísi

Jón Þór segir að reynslan sé sú að þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi að aðstoð sé hún ekki einvörðungu fjármögnuð af sjóðnum einum „Heldur er það ávísun á að fleiri aðilar komi inn í dæmið. Þannig að það er eitt hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur með og annað hvað aðrir koma með til viðbótar," segir Jón Þór.

Jón Þór segir að verið sé að stilla málinu upp fyrir ákvarðanatöku um lánið. Ýmsa þræði sé verið að leysa. Hann sagðist ekki vilja nefna nákvæmlega hvenær ákvörðun yrði tekin en sagði að það yrði gert í þessari viku.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×