Skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) fyrir lánveitingu sinni og aðstoð við endurreisn íslenska efnahagslífs eru m.a. breytingar á starfsemi bankanna, breyting á fjárlögum og gengismálum.
Þetta kemur fram í frétt í Financial Times í dag. IMF setur ekki skilyrði um að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur og IMF fer ekki fram á neinar grundvallarbreytingar á þjóðfélagsháttum landsins.
Þar að auki setur IMF ekki neinar tímatakmarkanir á því hvenær bankarnir verði einkavæddir á ný.
Hvað starfsemi bankanna varðar vill IMF breyta lögum um þá þannig að þau samrýmist alþjóðalögum og starfsreglum. Þar að auki vill IMF ítarlega rannsókn á því hvað fór úr skorðum í starfsemi íslensku bankanna.
Hvað fjárlögin varðar vill IMF fá raunhæfa áætlun frá ríkisstjórninni um sparnað og niðurskurð. Enda stefni í að erlendar skuldir þjóðarbúsins nemi yfir 100% af landsframleiðslunni.
Hvað gengismálin varðar vill IMF að gengið verði fljótandi eins hratt og auðið er. Sjóðurinn telur að eftir tiltölulega skamman tíma muni gengi krónunnar styrkjast á ný.