Viðskipti innlent

Segja Sterling selt á næstu dögum

Almar Örn Hilmarsson er forstjóri Sterling.
Almar Örn Hilmarsson er forstjóri Sterling.

Íslenskir eigendur danska flugfélagsins Sterling eiga nú í viðræðum um sölu á því og er búist við því að samningar náist næstu daga. Þetta kemur fram á fréttavef Jótlandspóstsins og er vitnað í heimildarmenn sem þekki vel til málsins. Segir blaðið að viðræður standi yfir við tvo til þrjá aðila um kaup á flugfélaginu og að viðræðum muni ljúka um helgina eða í síðasta lagi í lok næstu viku.

Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling, staðfestir við Jótlandspóstinn að eigendur félagsins eigi í viðræðum við hugsanlega fjárfesta. Hann geti hins vegar ekki tjáð sig frekar um málið. Þá viðurkennir hann að staðan hafi verið erfið að undanförnu vegna að þess að allt traust á fyrirtækjum tengdum Íslandi hafi horfið með fjármálakreppunni.

,,Hið mótsagnarkennda er þó að salan hjá okkur hefur aukist í fjármálakreppunni. Á síðustu þremur vikum hefur viðskiptavinum úr fyrirtækjageiranum fjölgað mjög. Viðskiptavinir, sem áður flugu með SAS, fljúga nú með okkur," segir Almar.

Almar vill ekki tjá sig um hverjir vilji kaupa félagið eða hversu hátt verð verði greitt fyrir það en Jótlandspósturinn hefur eftir heimildarmönnum að það séu ekki Íslendingar.

Sterling er nú í eigu Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×