Viðskipti innlent

LÍÚ furðar sig á að Danir leiti til ESB vegna makrílveiða Íslendinga

"Ég átta mig ekki alveg á því af hverju Danirnir eru að biðja Evrópusambandið um að hlutast til um hvernig við högum veiðum á deilistofnum innan okkar landhelgi. ESB hefur ekkert um það segja þannig að þetta fellur um sjálft sig," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ á vefsíðu samtakanna.

Greint er frá því á vefsíðunni skip.is að samtök framleiðenda uppsjávarfisks í Danmörku (PO) hafi farið þess á leit við Joe Borg, fiskimálastjóra Evrópusambandsins að hann beiti sér gegn makrílveiðum Íslendinga og grípi inn í þær.

Vísað er í Christian Olsen talsmann samtakanna sem segir í samtali við sjávarútvegsblaðið Fiskeri Tidende að veiðar Íslendinga séu algjörlega óásættanlegar.

Makríll hefur í stórvaxandi mæli leitað til Íslands á síðustu tveimur árum samfara hlýnun sjávar og er afli Íslendinga orðinn 112.000 tonn á þessu ári, sem nær allur hefur fengist innan íslenskrar lögsögu.

Heildarafli makríls í Norðaustur-Atlantshafi er áætlaður um 600.000 tonn á yfirstandandi ári sem þýðir að hlutur Íslands er í kringum 20%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×