Viðskipti innlent

Eimskip semur við skuldabréfaeigendur um að gjaldfella ekki kröfur

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

Eimskip hefur samið við 95 prósent skuldabréfaeigenda í tveimur flokkum félagsins um að gjaldfella ekki kröfu sína á meðan unnið er að sölu eigna félagsins og endurskipulagningu þess. Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að áfram verði reynt að ná samningi við þann hluta eigenda skuldabréfa sem hafi ekki samið við félagið.

Haft er eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra félagsins, að félagið vinni að sölu eigna ,,og því mikilvægt að skapa frið um félagið á meðan söluferli er í gangi. Stjórnendur félagsins vinna nú að endurskipulagningu ásamt endurfjármögnun félagsins og er stuðningur skuldabréfaeigenda því mikilvægt skref í þeirri vinnu. Með því að veita Eimskip þetta svigrúm er verið að vernda eignir þess og þar með að takmarka áhættu kröfuhafa. Flutningastarfsemi Eimskips er í góðum rekstri, dagleg starfsemi og þjónusta við viðskiptavini er sem áður tryggð. Söluferli eigna gengur samkvæmt áætlun sem mun styrkja verulega fjárhagsstöðu félagsins."

Þá segir í tilkynningu að í umræddum skuldabréfaflokkum hafi Eimskip skuldbundið sig við útgáfu þeirra til að tryggja að bókfært eigið fé væri ekki lægra en 25% frá og með árshlutauppgjöri fyrsta ársfjórðungs 2008. ,,Ljóst er að Eimskip getur ekki tryggt þau viðmið og því hefur verið samið við 95% eigenda ofangreindra skuldabréfaflokka að þeir falli frá rétti sínum til að gjaldfella kröfu sína á hendur félaginu þrátt fyrir að eiginfjárhlutfallið sé eða verði lægra en 25% fram að gjalddaga. Eimskip hefur nú heimild til að fresta gjalddögum skuldabréfanna þar til 30 dögum eftir sölu á frystigeymslustarfsemi félagsins í Norður Ameríku en þó eigi síðar en 30. júní 2009. Þá verði öllum vaxtagreiðslum frestað til gjalddaga og gjaldfallnir vextir bætast við höfuðstól." Skuldabréfaflokkrarnir tveir eru að nafnvirði 9,5 milljarðar króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×