Viðskipti erlent

Moody´s breytir horfum fyrir langtímaskuldir FIH í neikvæðar

Lánshæfismatsfyrirtækið Moody's tilkynnti í dag að það hefði breytt horfum fyrir langtímaskuldir FIH Erhvervsbank, dótturfyrirtæki Kaupþings í Danmörku, í neikvæðar en þær voru áður stöðugar. Horfur fyrir skammtímaskuldir eru stöðugar.



Greining Landsbanks fjallar um málið í Vegvísi sínum. Þar segir að FIH var síðast metinn með stöðugar horfur þegar lánshæfismat Kaupþings fyrir langtímaskuldir, fjárhagslegan styrk og skammtímaskuldir var lækkað í A1/C-/P-1 í lok febrúar. Við það tækifæri staðfesti Moody's lánshæfiseinkunn FIH óbreytta, A1/C+/P-1.

Ástæður breytingarinnar eru að sögn Moody's áherslur í rekstri FIH, sem stefnir að því að verða leiðandi fjárfestinga- og fyrirtækjabanki í Danmörku, sem hefur leitt til þess að tekjur verða háðari markaðssveiflum en áður. Þannig vegi sjóðstreymislán og lán til fasteignakaupa þyngra í rekstri bankans en áður.



Moody's vekur einnig athygli á því að þrengingar eru nú í dönsku efnahagslífi, þar á meðal á fasteignamarkaði. Lán til fyrirtækja í fasteignarekstri eða byggingariðnaði nemur um 40% af lánasafni FIH. Þá séu útlán til 20 stærstu skuldunauta bankans um þrisvar sinnum meiri en eigið fé bankans í eiginfjárþætti og lán tengd fasteignum og byggingariðnaði um þriðjungur þeirra. Moody's tekur hins vegar fram að gæði eignasafnsins séu enn mjög góð og bankinn hafi ekki lánað áhættusæknari fasteignafyrirtækjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×