Erlent

Safna liði fyrir hugsanlegt uppgjör á Nörrebro

MYND/AP

Bæði innflytjendagengi og stuðningsmannaklúbbur Hells Angels safna nú liði fyrir hugsanlegt stríð um fíkniefnamarkaðinn á Nörrebro í Danmörku. Eftir því sem Berlingske Tidende hefur eftir heimildarmönnum sínum reyna báðir hópar að spila inn á kynþáttamál til þess að höfða til nýrra félaga.

Tíðar fregnir hafa borist af skotárásum á Nörrebro síðustu vikur og hafa sögusagnir um uppgjör milli þessara stríðandi fylkinga fengið byr undir báða vængi.

Berlingske Tidende segir frá því í dag að að SMS-skeyti gangi nú á milli innflytjenda þar sem því er haldið fram að AK-81, stuðningsmannaklúbbur vélhjólasamtakanna Hells Angels, séu hópur kynþáttahatara sem ráðist tilviljanakennt á innflytjendur á Norrebrö. Í hópi rokkaranna er hins vegar spilað inn á það að hér séu á ferðinni átök Dana og innflytjenda.

Þó telja lögregluyfirvöld ekki að átök hópanna að undanförnu eigi rætur sínar að rekja til kynþáttadeilna heldur miklu fremur til hins ábatasama fíkniefnamarkaðs á Nörrebro.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×