Skoðun

Hver á að gera hvað?

Árni Páll Árnason skrifar
Umræðan

Gengi krónunnnar

Við fall krónunnar undanfarið hafa margir gagnrýnt viðskipti bankanna með gjaldeyri og gert því skóna að þau hafi haft áhrif til veikingar krónunnar. Leit að blórabögglum af þessum toga er fánýt.

Erlendir spekúlantar hafa misst áhuga á krónunni og því sveiflast verðgildi hennar til og frá í litlum viðskiptum, til tjóns fyrir almenning og fyrirtæki. Bankamenn munu alltaf eiga viðskipti þegar þeim hentar því það er skylda þeirra gagnvart hluthöfum bankanna. Það er tilgangslaust að fárast yfir því. Sama á við um auðmenn landsins. Það er ekki hægt að byggja efnahagslegan stöðugleika á því að fara bónarveg að bönkunum eða auðmönnum og biðja þá vinsamlegast að reyna að passa að hagnast ekki á ónýtri krónu. Þeir munu alltaf gæta sinna hagsmuna og ekkert er við því að segja. Með sama hætti verður stöðugleiki ekki byggður á því að beita úreltum handaflsaðgerðum til að reyna að hafa áhrif á gengi gjaldmiðils sem flýtur á markaði.

En rétt eins og bankamenn bera skyldur gagnvart eigendum sínum og auðmenn bera skyldur gagnvart sjálfum sér bera stjórnmálamenn skyldur gagnvart kjósendum sínum. Það er hlutverk stjórnmálamanna að hugsa um hag almennings og verja hann. Þar skiptir mestu að skapa nógu sterka umgjörð um peningamál til að tryggja að bankar og auðmenn geti átt þau viðskipti sem hugur þeirra stendur til á markaði, án þess að almenningur þurfi að hljóta af því óásættanlegt tjón. Það á ekki að vera hlutskipti stjórnmálamanna að rella í auðmönnum og biðja þá um að haga viðskiptum sínum á einn veg eða annan til að verja ónýtt peningakerfi.

Það er ekki hægt að réttlæta það að einstök viðskipti á markaði eða áhugaleysi örfárra erlendra spekúlanta geti kallað stórfellda kjaraskerðingu og atvinnuleysi yfir fjölda fólks. Slíkt ástand sýnir algert ráðþrot íslensks stjórnmálakerfis gagnvart brýnustu verkefnum samfélagsins og átakanlegt getuleysi stjórnmálamanna til að varna því að örlög vinnandi fólks og verðmætaskapandi atvinnugreina ráðist af stundarhag markaðsafla.

Höfundur er alþingismaður.

 




Skoðun

Sjá meira


×