Viðskipti innlent

Ekkert gufubað við Laugarvatn næstu ár

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Engin aðstaða hefur verið við gufubaðið að Laugarvatni í tvö ár. Heimamenn lauma sér þó stundum í gufu, því sjálft gufubaðshúsið stendur enn.
Engin aðstaða hefur verið við gufubaðið að Laugarvatni í tvö ár. Heimamenn lauma sér þó stundum í gufu, því sjálft gufubaðshúsið stendur enn. Mynd/Egill
Á Laugarvatni er nú ekki starfrækt gufubað líkt og verið hefur um áratugaskeið. Aðstaða við gamla gufubaðið var rifin í fyrra því ætlunin er að reisa nýja og glæsilega heilsulind á svæðinu. Þorsteinn Kragh, einn talsmanna verkefnisins, sagði við Fréttablaðið árið 2006 að jafnvel yrði hægt að opna nýju aðstöðuna í september árið 2007. Framkvæmdir eru ekki hafnar.

Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir gufubað vera eitt af sérkennum staðarins. „Við bíðum eftir að þetta rísi og heilsulindin verði að veruleika. Ég hef fulla trú á verkefninu,“ segir Valtýr.

Spurður hvort menn hafi verið of fljótir á sér að rífa gömlu aðstöðuna segir hann að það hafi verið gert miðað við fyrirliggjandi plön þá. „Menn voru að vinna miðað við áætlanir þess tíma. Fyrirtækið verður að svara fyrir framkvæmdirnar, við höfum ekki fengið neina dagsetningu frá þeim. En þjónustuna vantar.“

Fyrirtækið Gufa ehf. stendur að framkvæmdunum. Byggingarfélag námsmanna á stóran hlut í fyrirtækinu. Fyrrverandi framkvæmdastjóri þess, Benedikt Magnússon, sat í stjórn þess. Hann sætir nú rannsókn efnahagsbrotadeildar lögreglu.

Kristján Einarsson, framkvæmdastjóri Gufu, segir að margt skýri þær tafir sem orðið hafi á framkvæmdunum. Nefna megi Gjábakkaveg, en framkvæmdir á Laugarvatni hafi átt að haldast í hendur við þá samgöngubót. „Við vonumst til þess að geta boðið verkefnið út í haust. Þetta er heil­mikil framkvæmd og gangi allt vel ættum við að geta hafið starfsemi vorið 2010.“ Þá verða fjögur ár frá því gamla aðstaðan var rifin.

Hollvinasamtök Smíðahúss og gufubaðs á Laugarvatni beittu sér fyrir stofnun Gufu ehf. Samtökin hafa fengið níu milljónir króna frá Húsafriðunarnefnd vegna gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, þar af fimm og hálfa milljón af fjárlögum.

Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir tafirnar ekki skaða fyrirtækið. Hann segir að um fjárfestingu upp á 200 til 300 milljónir sé að ræða og rekstur upp á 100 til 150 milljónir króna á ári.

Nokkuð hefur borið á óánægju heimamana með tafir og frágang á verkefninu. Svæðið er girt af, en engar merkingar er að finna um hvað sé væntanlegt og hvenær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×