Viðskipti innlent

Ástandið á fjármálamörkuðum ekki jákvætt

Forsætisráðherra segir ástandið á fjármálamörkuðum ekki jákvætt en ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins var birt í morgun.

Í spánni er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði um 1,4 prósent á þessu ári og að flest bendi til þess að íslenska hagkerfið sé enn á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar eftir öflugt uppgangstímabil. Samfara því mun viðskiptahallinn minka og atvinnuleysi aukast og gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð á fyrra hluta næsta árs.

Enn fremur spáir ráðuneytið litlum halla á afkomu ríkissjóðs á næsta ári en hann hefur undanfarin ár verið rekinn með allmiklum afgangi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að útlitið væri ekki slæmt „en hitt er annað mál að það sem hefur verið að gerast á mörkuðum er ekki mjög jákvætt en það má rekja að stóru leyti til breytinga á alþjóðlegum fjármálamarkaði sem hefur haft mjög neikvæð áhrif um heim allan eins og allir vita sem hafa fylgst með þeim málum," segir Geir.

„Hins vegar bendi ég á að í þjóðhagsspánni er t.d. gert ráð fyrir að viðskiptahallinn muni lækka mjög hratt á næstunni og hagvöxturinn verður 1,4 prósent samkvæmt þessari spá og það eru ekki horfur á því að forsendur fjárlaga séu að breytast nokkuð að marki," segir forsætisráðherra enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×