Viðskipti innlent

Dráttarvextir í 17 ára hámarki

Nú í byrjun mánaðar hækkuðu dráttarvextir í 26,5% en fram til þess höfðu þeir verið 25% í um eitt og hálft ár samfleytt. Leita þarf aftur til ársins 1991 til að finna hærri dráttarvexti en nú eru. Í nóvembermánuði árið 1991 fóru vextirnir í 27% en voru 30% í október sama ár.

Þetta kemur fram í í hálffimm fréttum Kauþings. Þar segir einnig:

„Nú hafa dráttarvextir verið að minnsta kosti 20% um 42 mánaða skeið eða frá ársbyrjun 2005. Dráttarvextir eru samtala grunns sem er miðaður við nafnvexti á lánum gegn veði hjá Seðlabankanum og vanefndaálags.

Grunnurinn stendur nú í 15,5% en vanefndaálagið er ellefu prósent. Dráttarvextir geta breyst 1 janúar og 1. júlí ár hvert, samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og gilda þeir vextir næsta hálfa árið þar á eftir. Því munu dráttarvextir standa í 26,5% fram til næstu áramóta þegar þeir verða endurskoðaðir á nýjan leik.

Enn herðist róðurinn hjá skuldsettum fyrirtækjum og einstaklingum í því vaxtaumhverfi sem við búum við, einkum hjá þeim sem eru í vanskilum. Dráttarvextir af einni milljón króna eru nú 22.083 krónur á mánuði í stað 20.833 króna í júní.

Á móti má benda á að miðað við þær breytingar sem urðu á útlánsvöxtum banka og sparisjóða á fyrri hluta ársins í kjölfar stýrivaxtahækkana fóru yfirdráttarvextir og raðgreiðslusamningar á kreditkortum í sumum tilvikum upp fyrir dráttarvexti. "








Fleiri fréttir

Sjá meira


×