Viðskipti innlent

Spáir rúmlega 14% ársverðbólgu í júlí

Greining Glitnis spáir rúmlega 14% ársverðbólgu í þessum mánuði. Jafnframt er gert ráð fyrir að verðbólgan verði töluverð fram á haust.

Greiningin fjallar um verðbólguna í Morgunkorni sinu. Þar segir að greiningin geri ráð fyrir að mánaðarleg verðbólga taki við sér á nýjan leik eftir gengislækkun á undanförnum vikum. Vísitala neysluverðs mun hækka um 1,6% milli júní og júlí. Hækkun VNV í ágúst og september verður einnig töluverð. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 14,3% í júlí og ná hámarki í 15,6% í ágúst.

Helsta orsök er gengislækkun krónunnar en verð á erlendri mynt hefur hækkað um nálægt 7%, samkvæmt gengisvísitölu, frá því síðasta verðbólguspá var unnin. Aðrir þættir hafa einnig áhrif og má þar nefna mikla eldsneytisverðshækkun erlendis. Á móti gengisáhrifum vega áhrif vegna sumarútsölu en líklegt er að þau verði meiri í ár en undanfarin ár vegna þess að verðmæling fer fram á öðrum tíma mánaðarins núna.

Greiningin spáir því að verðbólgan muni hjaðna hratt á næsta ári en nokkrir þættir munu vera þess valdandi. Hratt mun draga úr innlendum kostnaðarþrýstingi á seinni hluta þessa árs og eftirspurn mun að sama skapi minnka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×