Viðskipti innlent

„Við munum gera færri hluti en gera þá betur“

Breki Logason skrifar
Ólafur Jóhann Ólafsson, nýr stjórnarformaður Geysis Green Energy.
Ólafur Jóhann Ólafsson, nýr stjórnarformaður Geysis Green Energy.

Ólafur Jóhann Ólafsson, nýr hluthafi og nýkjörin stjórnarformaður Geysis Green Energy, segir stefnuna setta á Bandaríkjamarkað, Kína og Þýskaland á næstunni. Hann segir forsvarsmenn fyrirtækisins hafa komið til sín um mögulega aðkomu að fyrirtækinu og talar vel um Wolfensohn fjárfestingarfélagið sem eignaðist einnig hlut í félaginu í dag. Þar segir hann mestu skipta að þetta séu „góðir náungar“.

„Ég hef lengi haft áhuga á vistvænni orku og sérstaklega jarðvarma. Ég byrjaði að skoða þetta á síðasta ári og það tók sinn tíma að ná lendingu," segir Ólafur Jóhann en hann eignast 2,6% hlut í fyrirtækinu. Hann segir forsvarsmenn GGE hafa leitað til sín í upphafi.

„Mig minnir að þeir hafi leitað til mín í upphafi en síðan þá hefur margt breyst hér í orkumálum, ég ætla samt að leiða hugann sem minnst að því," segir Ólafur Jóhann.

Hann segir aðkomu Wolfensohn, fyrrverandi forstjóra Alþjóðabankans, að félaginu hafa skipt máli en það félag var kynnt sem nýr hluthafi í dag. „Já við komum inn nokkurn veginn á sama tíma þannig að það hélst svolítið í hendur. Þetta er geysilega virt fyrirtæki og þarna eru einstaklingar sem gott er að vinna með. Þarna er mikil reynsla og gott orðspor, það sem skiptir samt mestu máli er að þetta eru góðir náungar."

Ólafur býr í New York en segist vera hér á landi þegar hann getur. Hann reiknar þó með að eyða meiri tíma hér á landi eftir að hafa tekið við stjórnarformennsku.

„Ég er náttúrlega ekki að fara að reka fyrirtækið heldur verður það forstjórinn og hans teymi. En ég verð þeim eins mikið innan handar og ég get. Fyrirtækið er með starfsemi víðar en bara hér en höfuðstöðvarnar verða áfram í Reykjanesbæ og við munum halda áfram nánu samstarfi með Árna bæjarstjóra og Hitaveitu suðurnesja," segir Ólafur Jóhann og bætir við að næstu skref fyrirtækisins verði að sækja á Bandaríkjamarkað.

„Ég sé líka ágæta möguleika í Þýskalandi og Kína og við munum einbeita okkur að þessum mörkuðum á næstu misserum. Við munum gera færri hluti en gera þá betur," segir Ólafur að lokum.








Tengdar fréttir

Blásum í seglin í kreppunni

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, segir mikið fagnaðarefni að fá nýja hluthafa inn í félagið. Félagið kynnti í hádeginu þá Ólaf Jóhann Ólafsson og bandaríksa fjárfestingafélagið Wolfensohn Company sem nýja hluthafa. Hlutafé félagsins verður aukið um fimm milljarða.

Ólafur Jóhann líklega kjörinn stjórnarformaður GGE

Ólafur Jóhann Ólafsson verður væntanlega kosinn stjórnarformaður í Geysir Green Energy í dag. GGE hefur boðað til hluthafafundar vegna breytinga á stjórn félagsins og innkomu nýrra hluthafa og verður fundurinn á Suðurnesjum í hádeginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×