Viðskipti innlent

Blásum í seglin í kreppunni

Breki Logason skrifar
Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, segir mikið fagnaðarefni að fá nýja hluthafa inn í félagið. Félagið kynnti í hádeginu þá Ólaf Jóhann Ólafsson og bandaríksa fjárfestingafélagið Wolfensohn Company sem nýja hluthafa. Hlutafé félagsins verður aukið um fimm milljarða.

„Þeir eru ólíkir en eru báðir gríðarlega mikilvægir fyrir félagið. Það er mikið fagnaðarefni að fá Wolfensohn inn í hluthafahópinn en hann er gríðarlega reyndur og hefur sérstaka sýn á þriðja heims löndin þar sem er mikil þörf fyrir nýtingu á jarðvarmaorku," segir Ásgeir en James Wolfensohn er eigandi félagsins ásamt fleiri aðilum.

Wolfensohn er fyrrverandi forstjóri Alþjóðabankans en sonur hans Adam mun setjast í stjórn fyrirtækisins fyrir hönd félagsins, líkt og Vísir greindi frá í morgun.

Ólafur Jóhann mun vera stjórnarformaður félagsins og Ásgeir er ánægður mað að hafa fengið hann um borð. „Ólafur er reyndur fjárfestir og það er frábært að fá hann til félagsins. Við lítum á þetta sem mikil tækifæri og hlutafé félagsins er aukið mikið," segir Ásgeir og nefnir þar fimm milljarða króna.

„Það er því verið að blása í seglin í kreppunni, fimm milljarðar er mikið á þessum tíma."

Aðspurður um hversu lengi viðræður við nýju aðilana hefðu staðið yfir segir Ásgeir: „Við byrjuðum að tala við Ólaf eins og kunnugt er í haust. En þetta fór síðan á flug núna í vor og við náðum að klára þetta."






Tengdar fréttir

Ólafur Jóhann líklega kjörinn stjórnarformaður GGE

Ólafur Jóhann Ólafsson verður væntanlega kosinn stjórnarformaður í Geysir Green Energy í dag. GGE hefur boðað til hluthafafundar vegna breytinga á stjórn félagsins og innkomu nýrra hluthafa og verður fundurinn á Suðurnesjum í hádeginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×