Viðskipti innlent

Fundað um lán til Íslands í Stokkhólmi

Ingimundur Friðriksson.
Ingimundur Friðriksson.
Fulltrúar norrænu Seðlabankanna og fjármálaráðuneyta landanna funduðu í Stokkhólmi í dag um hugsanlega aðstoð hinna norrænu ríkjanna við Ísland í kreppunni. Eftir því sem fram kemur á fréttavef breska blaðsins Financial Times sat Ingimundur Friðriksson, einn seðlabankastjóra, fundinn fyrir hönd Íslands.

 

Fundað var í fjármálaráðuneyti Svía og segir blaðið fundinn skýrt merki þess að Danmörk, Finnland og Svíþjóð muni líklega tilkynna um lánapakka til Íslands. Norðmenn hafa þegar ákveðið að lána Íslendingum 500 milljónir evra, jafnvirði um 80 milljarða króna.

Þá segir FT að íslensk stjórnvöld vonist eftir því að fá svar á morgun eða hinn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um tveggja milljarða dollara lán til Íslands. Þegar það hafi fengist muni norrænu bankarnir ræða um það frekar hversu mikla fjármuni þeir eru tilbúnir að lána. Fram kemur að Íslendingar telji sig þurfa um 6 milljarða dollara, um 700 milljarða króna, til þess að styrkja gjaldeyrisforðann og koma gjaldeyrismálum aftur í lag eftir hrun bankanna.

 

FT segir að auk Ingimundar hafi Audun Gronn, yfirmaður alþjóðadeildar norska seðlabankans, Barbro Wickman-Parak, varaseðlabankastjóri seðlabanka Svíþjóðar, og fulltrúar frá seðlabönkum og fjármálaráðuneytum Finnlands og Danmerkur setið fundinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×