Erlent

Lítil kjörsókn í Simbabve

Dræm kosningaþátttaka hefur verið í Simbabve í morgun. Mugabe forseti ákvað að halda kosningar þrátt fyrir að flestir helstu leiðtogar heims hafi fordæmt þær.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Morgan Tsvangirai, hvatti fólk til þess að fara á kjörstað til þess að forðast ofbeldi af hálfu stjórnarhermanna. Þrátt fyrir hótanir var kosningaþátttakan í morgun dræm.

Mugabe, sem hefur verið við völd í Simbabve í 28 ár, er einn í framboði. Tsvangirai dró framboð sitt til baka fyrir sex dögum. Hann sigraði í fyrri umferð kosningana, en náði ekki hreinum meirihluta og því varð að efna til annarrar umferðar.

Mugabe vílar það ekkert fyrir sér að beita ofbeldi og flytja íbúa nauðuga á kjörstað. Hann hefur bannað eftirlitsmönnum að fylgjast með kosningunum og einnig blaða- og fréttamönnum. Forsetinn er 84 ára.

Ástandið er skelfilegt í Simbabve. Þar er 80 prósent atvinnuleysi, óðaverðbólga og skortur á matvælum og eldsneyti. Brauðhleifurinn kostar nú 150 milljón simbabvedollara, 150 sinnum meira en fyrir um mánuði.

Á fundi utanríkisráðherra átta helstu iðnríkja heims var fjallað um ástandið í Simbabve. Utanríkisráðherrarnir leggja áherslu á að fyrri umferð kosninganna verði tekin gild og að stjórnarandstaðan komi að stjórnarmyndun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×