Viðskipti erlent

Rio Tinto út úr norska olíusjóðnum vegna umhverfishneykslis

Stjórn norska olíusjóðsins hefur ákveðið að selja strax 80 milljarða kr. virði af hlutabréfum sínum í Rio Tinto sökum umhverfishneykslis í tengslum við rekstur stærstu gullnámu í heimi í Indónesíu.

Ástæðan sem gefin er upp er "verulega ósiðlegt athæfi" Rio Tinto sem rekur fyrrgreinda námu í samstarfi við Freeport McMoran námufélagið en árið 2006 voru hlutabréf í síðarnefnda félaginu sett á bannlista hjá norska olíusjóðnum.

Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs segir á heimasíðu norska fjármálaráðuneytisins að siðanefnd olíusjóðsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að Rio Tinto sé ábyrgt fyrir viðamiklum umhverfisspjöllum í tengslum við rekstur Grasberg námunnar í Indónesíu. Því hafi sjóðurinn ákveðið að losa sig við öll hlutabréf sín í Rio Tinto.

Ennfremur kemur fram á heimasíðunni að svo virðist sem engin teikn séu á lofti um að Rio Tinto muni breyta starfsháttum sínum í framtíðinni né grípa til aðgerða til að lagfæra þann skaða sem félagið hefur valdið.

Sem fyrr segir er Grasberg náman stærsta gullnáma í heimi og jafnframt sú þriðja stærsta hvað vinnslu á kopar varðar. Samkvæmt skýrslu frá samtökunum "War on Want" hafa íbúar í grennd við námuna mátt þola alvarleg mannréttindabrot og gífurlegur skaði hefur verið unnin á nánasta umhverfi námunnar.

Rio Tinto rekur nú álverið í Straumsvík og hefur í hyggja að auka álframleiðslu sína á Íslandi í framtíðinni.

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×