Viðskipti innlent

Öskurreiðir yfir því hvernig valið var í störf hjá endurreistu Sterling

Sjö hundruð fyrrverandi starfsmenn Sterling-flugfélagsins eru öskureiðir yfir því hvernig þeir voru valdir sem fá störf hjá endurreistu félaginu. Engin barnshafandi kona heldur vinnunni.

Aðeins 450 starfsmenn Sterling fá vinnu hjá endurreistu flugfélaginu. Sjö hundruð eru úti í kuldanum. Það var verkalýðsfélag starfsmannanna sem fékk það hlutverk að velja þá sem yrðu áfram.

Hinir sjöhundruð eru ósáttir og hafa skrifað verkalýðsfélaginu harðort bréf þar sem þess er krafist að það rökstyðji val sitt. Í bréfinu er bent á að ekkert tillit sé tekið til starfsaldurs, sem sé þó meginþáttur í kjarasamningum flugfélaga.

Engin barnshafandi kona hafi fengið vinnu áfram. Ekki heldur fólk í hlutastarfi og ekki heldur gamalreyndir fullorðnir starfsmenn sem hafi verið hátt á starfsaldurslistanum.

Búist er við að gengið verði frá kaupunum á Sterling í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×