Viðskipti innlent

Keypti í Glitni án öryggisnets

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Stjórnar­formaður Glitnis segir kaup fyrirtækis Kristins Þórs á stórum hlut í Glitni endurspegla trú Kristins á bankanum og sjálfum sér.
Stjórnar­formaður Glitnis segir kaup fyrirtækis Kristins Þórs á stórum hlut í Glitni endurspegla trú Kristins á bankanum og sjálfum sér.
Átök endurspeglast ekki í kaupum Kristins Þórs Geirs­sonar, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Glitnis, á hlut í bankanum fyrir tæpan milljarð í byrjun vikunnar. „Hvorki í stjórn, né hluthafahópi, þar eru engin átök og skýr sameiginleg markmið allra," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnar­formaður bankans.

Þorsteinn kveðst um leið fagna tækifærinu til að slá á sögusagnir um að kaup Kristins á hlut í bankanum séu dæmi um áhættulaus kaup forsvarsmanna banka sem oft á tíðum séu hluti af launakjörum. „Kristinn keypti í bankanum að eigin frumkvæði í gegnum fyrirtæki sitt sem stendur vel fjárhagslega og leggur fram tryggingar. Því er ekki um það að ræða að þetta sé hluti af hans starfskjörum og hann er ekki með neina sölutryggingu á þessum hlut. Hann hefur bara trú á bankanum og sjálfum sér og ákveður því að kaupa," segir Þorsteinn Már og bendir á að kaupin hafi farið fram á markaðsverði og uppfylli allar reglur.

Stjórnarformaður Glitnis kveðst sjálfur þeirrar skoðunar að gott sé að starfsfólk eigi hlut í fyrirtækinu þar sem það starfar og hafi af því hag að reksturinn gangi vel. „En sá hagur þarf þá líka að byggjast á raunverulegum árangri þannig að hagur hluthafa og starfsmanna fari saman. Í þessu hefur verið skekkja hingað til," segir hann. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×