Viðskipti erlent

Unnið að björgunarpakka fyrir nauðstadda banka í Danmörku

Það er víðar en á Íslandi sem unnið er að björgunarpökkum fyrir fjármálakerfið því danskir miðlar greina frá því að ríkisstjórnin þar í landi og bankarnir séu að komast að samkomulagi um sérstakan sjóð upp á 35 milljarða danskra króna, jafnvirði um 700 milljarða íslenskra króna, fyrir banka í neyð.

Eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstins munu bankar landsins greiða til sjóðsins í samræmi við stærð sína. Það þýðir að Danske Bank, Nordea og Jyske Bank borga stærstan hluta þess sem rennur í sjóðinn. Jótlandspósturinn segir að með þessu þurfi danskur almenningur ekki að hafa áhyggjur af innistæðum sínum í einstökum bönkum.

Danskir bankamenn segja að sjóðurinn muni skapa traust á dönskum bönkum þar sem sýnt sé fram á að þeir þurfi ekki á hjálp danskra yfirvalda að halda. Upphaflega voru lífeyrissjóðirnir dönsku inni í umræðunum um aðgerðirnar en samningaviðræðum við þá var hætt um helgina og því koma bara almennir bankar, danski seðlabankinn og ríkisstjórnin að aðgerðunum.

TV2 hafði eftir Steen Bocian, aðalhagfræðingi Danske Bank, að ef af samningunum yrði myndi traust á bönkunum aukast. ,,Við vitum ekki nákvæmlega hvernig samkomulagið lítur út en ef Seðlabankinn kemur inn í þetta sem bakhjarl þá er þetta góð áætlun. Bankarnir eiga almennt erfitt með að nálgast lausafé en með þessari áætlun verður hægt að nálgast slíkt aftur," segir Bocian.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×