Erlent

Lá lífið á að komast á barinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ætli Loretta Tollison hafi ekki náð að koma nokkrum svona fyrir kattarnef á meðan hún beið eftir lögreglunni?
Ætli Loretta Tollison hafi ekki náð að koma nokkrum svona fyrir kattarnef á meðan hún beið eftir lögreglunni?

Rúmlega fimmtug kona í Belton í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum á yfir höfði sér ákæru vegna þorsta síns. Lögregla kom að Lorettu Tollison á bar um hálftíuleytið á fimmtudagskvöldið.

Þetta teldist varla í frásögur færandi nema fyrir þá sök að á leið sinni á barinn hafði Loretta ekið Chrysler-bifreið sinni viðstöðulaust á aðra bifreið sem numið hafði staðar vegna vegaframkvæmda á brú á þjóðvegi US 29 norður. Bifreiðin sem ekið var á snerist 180 gráður við áreksturinn og fór við það út af brúnni og hrapaði niður á stæði fyrir utan stórmarkað fyrir neðan.

Loretta lét það ekki teppa för sína þótt líknarbelgurinn í stýrinu spryngi út heldur hélt akstrinum áfram og ók á fullri ferð gegnum framkvæmdasvæðið þar sem vegavinnumenn áttu fótum sínum fjör að launa. Hún nam ekki staðar fyrr en hún kom að Passing Time-barnum þar sem hún settist sallaróleg að drykkju.

Hún skildi ekkert í fyrirganginum í lögregluþjónunum sem komu inn á barinn skömmu síðar. „Ég veit ekki hvað vegavinnumennirnir voru að gera í vinnunni um þetta leyti dags," sagði Loretta við skýrslutöku. „Það voru engin ljós þarna."

Independentmail.com greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×