Erlent

Rússneski flotinn á leið umhverfis Ísland

Rússneskir sjóliðar í höfn. MYND/Getty
Rússneskir sjóliðar í höfn. MYND/Getty

Rússneskur floti siglir nú í átt að hafinu milli Íslands og Noregs áleiðis til Karíbahafsins. Þar ætla Rússar að taka þátt í flotaæfingu með venesúelska sjóhernum, æfingum sem taldar eru ætlaðar til að ögra Bandaríkjunum.

Hið kjarnorkuknúna beitiskip Pétur mikli fer fyrir flotanum, sem lagði úr höfn í Severomorsk norður af Murmansk snemma í morgun.

Heræfingarnar eru ekki fyrr en í nóvember en rússneska blaðið Isvestía segir að fyrirhugað sé að flotinn komi við í hafnarborginni Tartus í Sýrlandi, þar sem Sovétmenn voru á sínum tíma með flotaaðstöðu í Miðjarðarhafi og nú er verið að endurnýja sem bækistöð fyrir rússnesk herskip. Þaðan fara skipin svo til Karíbahafsins.

Síðast þegar floti af þessari stærð fór framhjá Noregi - í desember í fyrra - notuðu rússnesku sjóliðarnir tækifærið og æfðu bæði herskip og flugvélar innan um norska olíuborpalla. Norðmenn neyddust til að stöðva allt þyrluflug á svæðinu.

Förin nú hefur þann yfirlýsta tilgang að taka þátt í æfingum með venesúelska flotanum í Karíbahafi. En þetta er í fyrsta sinn síðan kalda stríðinu lauk sem Rússar fara með svo öflugan flota svo nærri Bandaríkjunum, inn á haf sem Bandaríkjamenn hafa ætíð litið á sem sitt áhrifasvæði.

Rússar hafa líka undirritað samninga um að selja ríkisstjórn Hugo Chavez í Venesúela orrustuflugvélar, herþyrlur og riffla og samningar standa yfir um sölu á kafbátum, loftvarnakerfum og fleiri orrustuflugvélum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×