Erlent

Stonehenge var lækningamiðstöð

Óli Tynes skrifar
Frá Stonehenge.
Frá Stonehenge.
Breskir fornleifafræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að steinahringurinn mikli Stonehenge sé um þrjúhundruð árum yngri en áður var talið. Upphafið er semsagt rakið til tímabilsins um 2300 fyrir Krist.

Jafnframt leiddi rannsókn fornleifafræðinganna til þeirrar niðurstöðu að hinir risavöxnu steinar hafi verið fluttir úr Presili hæðunum í Wales. Það er 240 kílómetra vegalengd og hefur verið mikið afrek á sínum tíma.

Fornleifafræðingarnir telja að Stonehenge hafi verið lækningastaður, kannski sambærilegur við Lourdes í Frakklandi. Í gröfum sem fundist hafa á svæðinu hefur verið óeðlilega hátt hlutfall af fólki sem lést úr alvarlegum sjúkdómum.

Tennur sem fundist hafa í gröfunum hafa leitt í ljós að um helmingur hinna látnu hafi ekki verið úr sveitinni í kringum Stonhenge. Það bendir ótvírætt til þess að fólk hafi komið þangað langa vegu að til þess að leita sér lækninga.

Þetta er í fyrsta skipti í 44 ár sem leyft hefur verið að grafa inni í steinhringnum. Fjórtán jarðvegssýni voru send til Oxford háskóla til aldursgreiningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×