Viðskipti innlent

Peningamarkaðssjóðir leystir upp

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fólk ætti brátt að fá inn á bankareikninga hluta eignar sinnar í peningamarkaðssjóðum bankanna. Hversu mikið skilar sér af fjárfestingum fólks á eftir að koma í ljós.
Fólk ætti brátt að fá inn á bankareikninga hluta eignar sinnar í peningamarkaðssjóðum bankanna. Hversu mikið skilar sér af fjárfestingum fólks á eftir að koma í ljós. Fréttablaðið/GVA
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur beint þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að grípa til aðgerða sem leiða til þess að peningamarkaðssjóðum félaganna verði slitið. Fólk sem fjárfest hefur í slíkum sjóðum má því eiga von á að fá úr þeim greiðslu inn á bankareikninga sína.

Byrjað verður á því að endurgreiða fólki laust fé í sjóðunum í hlutfalli við eignarhlut hvers og eins í þeim. Hversu mikið endanlega skilar sér svo af fjárfestingum fólks á eftir að koma í ljós.

„Þeim tilmælum er beint til rekstrarfélaganna að ekki verði opnað fyrir innlausnir í sjóðunum, heldur að sjóðsfélagar fái greitt úr þeim.

Í því felst að allt laust fé hvers peningamarkaðssjóðs verði greitt inn á innlánsreikninga sjóðsfélaga í hlutfalli við eign þeirra og jafnræði þeirra verði haft að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu sem FME sendi frá sér síðdegis í gær.

Í tilmælum eftirlitsins er einnig lagt til að greitt verði mánaðarlega inn á innlánsreikninga sjóðsfélaga í samræmi við hlutfallslega eign þeirra eftir því sem aðrar eignir sjóðsins fást greiddar, allt þar til engar eignir verði eftir í eignasafni sjóðanna.

Ekki liggur fyrir hversu langan tíma gæti tekið að gera upp sjóðina, en samkvæmt heimildum blaðsins er það verið mismunandi eftir sjóðum, sem séu mismunandi að gerð og samsetningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×