Viðskipti innlent

Björgólfsfeðgar tilbúnir með 26 milljarða lán til að bjarga Eimskip

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson fara fyrir hópi fjárfesta sem er tilbúinn til að veita Eimskip víkjandi lán að upphæð um 26 milljarðar fari svo að ábyrgð vegna XL Leisure Group falli á félagið eins og líkur eru á samkvæmt tilkynningu sem það sendi Kauphöllinni fyrir skömmu.

Eimskip hefur verið í ábyrgð fyrir 280 milljón dollara láni Landsbankans allt frá sölu félagsins á XL Leisure Group og hefur ekki tekist að endurfjármagna kaupin til að koma Eimskip undan ábyrgðinni. Í tilkynningunni segir að miðað við þá stöðu sem sé uppi á evrópskum flugmarkaði þá sé almennt líklegra en að ábyrgðin falli á Eimskip. Félagið var sett á athugunarlista Kauphallarinnar í gærmorgun.

Falli ábyrgðin á félagið, mun hópur fjárfesta undir forystu feðganna kaupa kröfuna og fresta gjalddaga hennar. Jafnframt er fyrirhugað að hún muni víkja fyrir kröfum annarra lánardrottna á hendur Eimskip. Með þessum aðgerðum eru takmörkuð þau áhrif sem ábyrgðir vegna lána og annarra skuldbindinga vegna XL samstæðunnar kunna að hafa á starfsemi Eimskips.

„Endurfjármögnun XL hefur verið stór þáttur í að losa Eimskip undan umræddum ábyrgðum. Við vonumst enn til þess að það ferli klárist en viljum jafnframt benda á að það ferli kann að reynast erfiðara en áður var talið. Komi til þess að ábyrgðin falli á Eimskip hafa öflugir fjárfestar lýst sig reiðubúna til að styðja við félagið sem ég tel mjög jákvætt. Markmið okkar er að eiginfjárhlutfall félagsins sé yfir 25%. Í því samhengi er unnið að ýmsum

aðgerðum í rekstri félagsins. Tilgangur þessara aðgerða er að lækka skuldir

Eimskip umtalsvert og þar með styrkja fjárhag félagsins og eiginfjárhlutfall," segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í tilkynningunni.

Eimskip hefur átt erfitt uppdráttar á þessu ári. Hlutabréf félagsins hafa fallið um rúm 70% það sem af er árinu. Félagið þurfti að afskrifa níu milljarða fjárfestingu sína í breska félaginu Innovate fyrr í sumar og við hálfs árs uppgjör var eiginfjárhlutfall þess rétt um 14%. Jafnframt hefur ábyrgð Eimskip á 26 milljarða láninu vegna XL Leisure Group legið á félaginu eins og mara. Með aðkomu Björgólfsfeðga, sem er næststærstu hluthafar félagsins, er tryggt að eigið fé félagsins skerðist ekki meira en raunin er í dag jafnvel þótt ábyrgðin falli öll á Eimskip.

Ekki er vitað á þessari stundu hvort víkjandi lán Björgólfsfeðga muni breytast í hlutafé eftir ákveðinn tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×