Viðskipti innlent

Velta á gjaldeyrismarkaði þrefaldast milli ára

Velta á gjaldeyrismarkaði í aprílmánuði nam 845,3 milljörðum kr. samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Í apríl fyrir ári síðan var veltan 235,5 milljarðar kr. og hefur því ríflega þrefaldast á milli ára.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að krónan styrktist um 3,8% í apríl, enda var gengi hennar afar lágt við upphaf mánaðarins. Í nýliðnum mánuði var velta á gjaldeyrismarkaði þó talsvert minni en í mars, en þá var veltan 1.212 milljarða kr. og hefur aldrei verið meiri.

Í febrúar síðastliðnum var veltan 550 milljarðar kr. Velta með gjaldeyri á millibankamarkaði á 1. fjórðungi ársins nam alls 2.000 milljörðum kr. sem er svipuð velta og var á fyrri helmingi síðasta árs.

Velta með gjaldeyri hefur verið að aukast hér á landi síðustu misserin. Heildarvelta með gjaldeyri á millibankamarkaði á síðasta ári var samtals 4.967 milljarðar kr. og hefur ársveltan ríflega fimmfaldast frá síðustu aldamótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×