Viðskipti erlent

Húsleit hjá Sterling í morgun

Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling.
Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling.

Danska samkeppniseftirlitið gerði í morgun húsleit hjá danska flugfélaginu Sterling Airlines. Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling, segir í samtali við Vísi að leitin tengist samstarfssamningi Sterling við Norwegian um flug á milli á Osló og Kaupmannahafnar sem tekur gildi 15. september.

Almar Örn sagði við Vísi að Sterling og Norwegian hefðu haft samstarf frá árinu 2004. Þegar nýr samstarfssamningur var gerður í sumar hafi hann verið sendur til norskra, danskra og sænskra samkeppnisyfirvalda. Yfirvöld í Noregi og Svíþjóð hafi samþykkt samninginn en Danir hafi ekki skilið hann til hlítar.

„Þeir mættu hérna í morgun og framvísuðu úrskurði til að skoða gögn. Húsleitin stendur enn yfir enda um gríðarlegt magn af gögnum að ræða," segir Almar og bætir við að slíkar heimsóknir samkeppnisyfirvalda séu mun algengari í Danmörku en á Íslandi. „Ég fæ ekki séð að verið sé að skoða samráð í þessu tilviki. Það koma yfirleitt tveir að samráði en eftir því sem ég veit best hefur ekki verið gerð húsleit hjá Norwegian," segir Almar.

„Við vinnum með þeim til að leysa þetta mál enda er þessi samstarfssamningur skotheldur. Slíkir samningar tíðkast um allan heim," segir Almar sem fer á fund með samkeppnisyfirvöldum á morgun, fund sem var ákveðinn fyrir nokkru síðan.

Sterling er í eigu Nothern Travel Holding sem er í eigu Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.



 

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×