Erlent

Hvetur Bandaríkjaþing til að samþykkja aðgerðir

Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hvetur þingmenn í Washington til að flýta sér að samþykkja 700 milljarða dollara inngrip á fjármálamörkuðum. Samþykktin gæti þó tafist því ekki eru allir þingmenn reiðubúnir að samþykkja tillögurnar óbreyttar.

Samkvæmt tillögum Paulsons myndi bandaríska fjármálaráðuneytið fá leyfi þingsins til að nota 700 milljarða dollara til þess að kaupa áhættulán fjármálafyrirtækja, einkum fasteignalán. Þannig vill hann koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrotahrinu sem gæti ógnað fjármálalegum stöðugleika í landinu.

Nú þegar hafa báðir forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum og ýmsir þingmenn varað við afleiðingum þess að veita ráðuneytinu, undir stjórn Paulsons, jafn víðtækar heimildir og hann krefst. Þannig sagði John McCain að ekki kæmi til greina að forstjórar fyrirtækjanna sem á að bjarga með peningum skattgreiðenda þæðu ofurlaun á meðan. Hann vill takmarka laun þeirra við hæstu laun hjá hinu opinbera.

Demókratar á þingi tóku undir þetta í gærkvöldi og sögðust vilja að þingið hefði eftirlitshlutverk. Ekki gengi að skrifa ávísun upp á sjö hundruð milljarða dollara og vona bara hið besta. Frá Bush-stjórninni heyrist hins vegar að aðalatriðið sé að þingið gangi hratt til verks því dragist málið á langinn sé framundan uppnám á fjármálamörkuðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×