Viðskipti innlent

Nærri ellefu prósenta raunlækkun á fasteignaverði

MYND/Valli

Verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæði hækkaði um 0,8 prósent milli mánaða í júlí samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins. Þetta kemur fram í hálffimmfréttum Kaupþings.

Þar segir enn fremur að ýmsar vísbendingar séu um að fasteignaverð muni taka að lækka á árinu en miklar sveiflur hafi verið í verðþróun vegna lítilla umsvifa á fasteignamarkaði. „Hugsanlegt er að ýmsir gæðaþættir spili inn í þau viðskipti sem eiga sér stað nú, en þá er ljóst að niðurfelling stimpilgjalda á fyrstu íbúð þann 1. júlí hefur aukið umsvif að undanförnu," segir í hálffimmfréttunum.

Greiningardeild Kaupþings segir að þrátt fyrir þessa hækkun nemi raunlækkun fasteignaverðs um 0,1 prósenti milli mánaða og síðustu tólf mánuði hefur fasteignaverð lækkað um 10,9 prósent að raunvirði.

„Eftir verulegan samdrátt í viðskiptum á fasteignamarkaði undanfarna mánuði jókst velta um 40% frá fyrri mánuði í júlí en er þó rúmlega 40% undir meðalveltu í júlí síðustu sex árin. Viðbúið var að breytingar á Íbúðalánasjóði (ÍLS) sem miðast við 19. júní myndu hreyfa við markaðnum en einnig voru stimpilgjöld af fyrstu íbúð felld niður og tók sú breyting gildi þann 1. júlí síðastliðinn. Meðal breytinga hjá ÍLS voru hækkun hámarksláns úr 18 ma.kr. í 20 ma.kr. auk þess sem markaðsvirði liggur nú til grundvallar lánveitingu í stað brunabótamats," segir greiningardeildin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×