Viðskipti innlent

Trú á krónuna ræður úrslitum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Paul Thomsen Paul, er formaður starfshóps AGS, sem hingað kom vegna lánsumsóknar Íslenska ríkisins.
Paul Thomsen Paul, er formaður starfshóps AGS, sem hingað kom vegna lánsumsóknar Íslenska ríkisins. Fréttablaðið/Anton
Trúverðugleiki peningamálastefnu Seðlabankans og gengi krónunnar ræður úrslitum um hvernig tekst til við að tryggja hér stöðugleika á ný. Þetta kemur fram í mati fulltrúa sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagshorfum hér.

Horfur eru sagðar ágætar á að þetta markmið náist, enda sé fyrirséður viðsnúningur hvað viðskiptahalla varðar og peningamálastjórn miði við að styðja við gengi krónunnar. Nokkur áhætta er þó sögð falin í þessari stefnu, enda þýði hátt vaxtastig miklar byrðar á hagkerfið.

Ótímabær lækkun stýrivaxta um miðjan október er sögð kunna að hafa grafið undan trú á stuðning við krónuna. Verði sú raunin verður dýrara og tímafrekara en ella að ná jafnvægi á ný.

Í morgunkorni Greiningar Glitnis í gær segir jafnframt að stýrivextir einir megi sín lítils til að styðja við krónuna.

„Með hruninn trúverðugleika og opið hagkerfi er ljóst að sú hækkun stýrivaxta sem framkvæmd var 28. október síðastliðinn upp í 18 prósent breytir ein og sér litlu um líklegt fjármagnsútflæði þegar höftum á gjaldeyrismarkaði verður létt. Meðalið þarf að vera sambland af stýrivöxtum, lausafjárstýringu, inngripum á gjaldeyrismarkaði og höftum á fjármagnsflutninga. Ef þetta meðal virkar ekki til að létta af þrýstingnum á krónuna verður að heimila krónunni að aðlagast markaðsöflunum,“ segir þar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×