Viðskipti innlent

Greining Glitnis segir að krónan sé í rauninni fljótandi.

Greining Glitnis segir að krónan sé í rauninni fljótandi. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um gjaldeyrismálin og þróunin á þeim markaði frá því að bankarnir hrundu í upphafi október.

Viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri hafa legið niðri frá því í október eða frá bankahruninu. Á millibankamarkaði voru stóru viðskiptabankarnir þrír viðskiptavakar og störfuðu samkvæmt reglum þar að lútandi, en þær varða t.d. verðmyndun og tíðni tilboða. Þar ákvarðaðist gengi krónunnar í því flotgengisfyrirkomulagi sem var fyrir hrunið.

Tilboðsmarkaður fyrir gjaldeyri leysti til bráðabirgða millibankamarkaðinn af hólmi og byrjaði sá markaður 15. október síðastliðinn. Höfðu gjaldeyrisviðskipti þá legið niðri meira og minna í þrjár vikur. Á tilboðsmarkaðinum er fleirum heimiluð viðskipti en áður voru á millibankamarkaðinum og í leiðinni eru skyldur þeirra mun minni. Þarna eru nýju bankarnir þrír ásamt nokkrum öðrum fjármálafyrirtækjum, auk Seðlabankans.

Fyrirkomulagið á tilboðsmarkaðinum er þannig að daglega er haldið uppboð þar sem gengi krónunnar ræðst af framboði og eftirspurn. Niðurstöður um viðskipti og verð eru birtar á heimasíðu Seðlabankans daglega. Markaðurinn ákvarðar gengi krónu gagnvart evru.



Krónan er í raun fljótandi. Kalla má það temprað flot og hefur krónan lækkað talsvert frá því að fyrirkomulagið var tekið upp. Evran hefur þannig farið úr því að vera 150 krónur í að vera 181 króna. Lækkunin þennan tíma nemur ríflega 17%.

Gjaldeyrisviðskiptin eru tempruð eða heft. Temprunin er á framboð gjaldeyris á tilboðsmarkaðinum og þá hvaða tilboðum er tekið. Frá upphafi markaðarins hefur einungis fjórum sinnum verið tekið öllum tilboðum. Vegna þess hvað gjaldeyrisviðskipti höfðu legið lengi niðri voru viðskiptin mikil á markaðinum fyrstu dagana. Fremur hefur dregið úr þeim síðan. Fyrstu tvær vikurnar sem markaðurinn starfaði var meðalfjárhæð viðskipta á dag 17,2 milljónir evra en síðustu tvær vikur hefur meðalfjárhæðin verið 4,4 milljónir evra.

Gjaldeyrisviðskiptin eru tempruð m.t.t. eðlis þeirra viðskipta sem aðilar að tilboðsmarkaðinum eiga að nýta gjaldeyri í. Seðlabankinn birti síðast opinberlega tilmæli til aðila markaðarins um þetta 10. október síðastliðinn. Varða þau höft á gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta ástamt höftum á fjármagnsflutninga. Einungis er hér um að ræða tilmæli. Hefur Seðlabankinn slakað nokkuð á þessum tilmælum síðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×