Viðskipti innlent

Aðeins ein milljón evra seld á uppboði Seðlabankans í dag

Aðeins ein milljón evra voru seldar á gjaldeyrissuppboði Seðlabankans í dag. Hæsta kauptilboð var 185 krónur og hæsta sölutilboð var 182,5 krónur. Ekki var öllum kauptilboðum tekið.

Þetta er næstaminnsta salan á uppboðum Seðlabankans frá því að þau hófust 15. október ef undan er skilin 11. nóvember þegar ekkert seldist af gjaldeyri.

Þeir sem kunnugir eru gjaldeyrismálum telja að aðeins brot af þeim gjaldeyri sem útflytjendur fá í sínar hendur skili sér inn á gjaldeyrismarkað Seðlabankans og er salan í dag og undanfarna daga merki um slíkt

Fjallar er um gjaldeyrismálin á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands í dag. Þarsegir að staðan á gjaldeyrismarkaði hafi lítið breyst undanfarna daga og vikur. Gjaldeyristemprun Seðlabankans er enn við lýði og þrátt fyrir að viðskiptabankarnir þrír hafi nýlega eignast sína eigin gjaldeyrisreikninga hjá JP Morgan geta þeir enn ekki sinnt erlendri greiðslumiðlun á eigin spýtur.

Viðskiptaráð telur að ýmislegt bendi til þess að krónunni verði fleytt von bráðar, jafnvel á allra næstu dögum. Þó hafa enn ekki fengist haldbærar upplýsingar um það með hvaða hætti það verður gert og því lítið hægt að segja til um líklega þróun á gjaldeyrismarkaði á næstunni. Í öllu falli er ljóst að enn ríkir mikið óvissuástand á gjaldeyrismarkaði. Brýnt er að úr þessu verði greitt eins fljótt og auðið er.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×