Viðskipti innlent

Þriggja ára samstarfsamningur Háskóla Íslands og Símans

Í dag undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, samstarfssamning til þriggja ára. Hann felur í sér umfangsmikið samstarf, m.a. á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Í tilkynningu um málið segir að samningurinn sé afrakstur viðræðna, sem byggðu á ákveðinni aðferðarfræði þar sem kortlagðir voru snertifletir í starfsemi þessara aðila, með ávinning beggja að leiðarljósi. Síminn er fyrst íslenskra fyrirtækja sem háskólinn gerir samning við undir merkjum þessarar aðferðarfræði.

Alls eru skilgreind 12 verkefni í samningnum sem aðilar hyggjast koma til framkvæmda á næstu þremur árum. Þar á meðal munu Háskóli Íslands og Síminn auka rannsóknarsamstarf sitt og skuldbinda sig til að standa sameiginlega að einni rannsóknarumsókn í erlenda samkeppnissjóði á ári.

Samvinna um lokaverkefni á stigi BSc og MSc gráða sem og á doktorsstigi er hluti af samningnum. Ennfremur felur hann í sér nýjungar fyrir nemendur HÍ, í formi skólastarfs (co-op) og starfsnáms (design clinic), menntun og starfsþróun fyrir starfsmenn Símans og þróunarverkefni um sérsniðnar þjónustulausnir fyrir nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands.

Þá hefur Síminn ákveðið að styðja Afreks- og hvatningarsjóð stúdenta Háskóla Íslands en sá sjóður styrkir nemendur sem sýnt hafa afburðaárangur í námi. Alls mun Síminn styðja við bakið á sex nemendum um þriggja ára skeið. Þessi stuðningur er ómetanlegur til hvatningar og til að sporna við atgervisflótta ungs og hæfileikaríks fólks á þeim erfiðleikatímum sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×