Erlent

Al Kaída líklega á bak við Marriott árásina

Sprengjuárásin á Marriott hótelið í Islamabad í Pakistan ber þess merki að hafa verið skipulögð af hryðjuverkasamtökunum Al Kaída. Þetta segir hátt settur yfirmaður í bandarísku leyniþjónustunni. Að minnsta kosti fjörutíu manns létu lífið og óttast er að sú tala muni hækka.

Vörubíll sem hlaðinn var sprengiefni ók í gegnum öryggishlið hótelsins og sprengdi ökumaðurinn sig og bílinn í loft upp þegar hann var kominn að inngangi hótelsins. Leyniþjónustumaðurinn segir í samtali við Reuters að þótt enn sé of snemmt að fullyrða um hverjir hafi skipulagt ódæðið benda flestar vísbendingar til þess að Al Kaída hafi staðið að árásinni.

Sprengjan olli gríðarlegu tjóni á hótelinu og óttast menn að það kunni að hrynja til grunna. Flestir þeirra sem létust voru staddir á veitingastað hótelsins á jarðhæðinni en um sex metra djúpur gígur myndaðist þegar bíllinn sprakk í loft upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×