Viðskipti innlent

Yfirmenn peningamarkaðssjóða hætta

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Landsbankinn hefur fallist á beiðni Stefáns H. Stefánssonar, framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs og stjórnarformanns Landsvaka, og Sigurðar Óla Hákonarsonar, framkvæmdastjóra Landsvaka, um að þeir láti af störfum hjá bankanum, samkvæmt tilkynningu sem send var út í gær.

Landsvaki er rekstrarfélag verðbréfa- og fjárfestingasjóða Landsbankans.

Stefán og Sigurður Óli eru sagðir munu láta af störfum á næstu dögum en þangað til sinni þeir starfsskyldum.

„Með þessu vonast þeir til að nauðsynlegur friður skapist um starfsemi Eignasviðs Landsbanka,“ segir í tilkynningu bankans, en þar er vísað til gagnrýni vegna taps peningamarkaðssjóða bankans. Samkvæmt upplýsingum úr Landsbankanum er um eigin ákvörðun Stefáns og Sigurðar Óla að ræða.

Með henni vilji þeir axla ábyrgð, án þess þó að þeir séu að játa sök í einhverjum efnum. „Landsbankinn þakkar Stefáni og Sigurði fyrir þeirra störf á liðnum árum og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×