Viðskipti innlent

Skítastaða áfram í gjaldeyrismálum - Ögurvík hættir sölu til Bretlands

Svo virðist sem erlendir bankar ætli að bíða eftir formlegu samkomulagi Alþjóðgjaldeyrissjóðsins. Áfram er skítastaða í gjaldeyrisviðskiptunum að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Samtaka fiskvinnslustöðva. Ögurvík er hætt að selja fisk til Bretlands meðan ástandið varir.

Indriði Ívarsson, sölustjóri Ögurvíkur, segir að greinilegt sé að erlendir bankar ætli að halda að sér höndum þar til formlegt samkomulag er komið á milli Íslands og IMF. ,,Á meðan erum við í pattstöðu," segir Indriði.,,Við höfum stoppað alla sölu til Bretlands meðan ástandið varir en getum enn selt til Asíu."

Arnar Sigurmundsson bendir á að ruglið í gjaldeyrisviðskiptunum komi mismunandi niður á útflutningsfyrirtækjunum. ,,Vandinn er sá að þessi gjaldeyrisviðskipti hafa verið mjög fljót og skilvirk hér á landi svo áratugum skiptir," segir Arnar. ,,Þegar kerfið fer svo í stopp er slíkt fljótt að bíta í hjá okkar fólki."

Arnar segir að bankahrunið hafi því verið eins og að lenda á vegg fyrir fiskvinnsluna. Og nú hafi ástandið varað í 3-4 vikur. ,,Bretland er langerfiðasta vandamálið sem við glímum við í dag," segir Arnar. ,,Það er ekki aðeins að afurðasalan til Bretlands vegur þungt, eða 27% af heildinni, heldur hefur London verið fjármálamiðstöð fyrir marga sem selja afurðir sínar í öðrum Evrópulöndum."

Hvað aðgerðir varðar segir Arnar að þeir séu með fulltrúa í aðgerðarhópum Samtaka atvinnulífsins en þeir funda nú daglega um stöðu mála. ,,Við erum líka í góðu sambandi við okkar félagsmenn og upplýsum þá um stöðuna eins og hægt er," segir Arnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×