Viðskipti erlent

Segja atvinnuleysi meðal ríkra aðildarþjóða OECD aukast töluvert

Búast má við að atvinnuleysi aukist töluvert á árinu meðal flestra af ríkari aðildarþjóðum OECD. Þetta kemur fram í nýbirtu riti Efnahags- og framfarastofnunarinnar um stöðu á vinnumörkuðum aðildarlandanna.

Vitnað er til þess í hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings. Þar segir að Ísland sé eitt þeirra landa þar sem stofnunin býst við að atvinnuleysi muni aukast hvað mest, en auk Íslands nefnir stofnunin Írland, Spánn og Tyrkland.

OECD gerir ráð fyrir að meðalatvinnuleysi hjá aðildarlöndunum 30 aukist úr 5,6 prósentum í 5,7 prósent á þessu ári og að atvinnuleysi aukist svo í sex prósent á næsta ári.

Greiningardeildin bendir enn fremur á að Efnahags- og framfarastofnunin búist við ört vaxandi atvinnuleysi í stærsta hagkerfi heims, Bandaríkjunum. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum var 4,6 prósent í fyrra en OECD gerir ráð fyrir að það verði 5,4 prósent á þessu ári og 6,1 prósent á næsta ári.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×