Innlent

Mikil örtröð á dekkjaverkstæðum

Mikil örtröð hefur verið á hjólbarðaverkstæðum á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Umferðin hefur gengið vel fyrir sig og fá og lítil óhöpp.

Það er eins og fyrri árin, þegar snjóar þá fara ökumenn að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að setja vetrardekkin undir bílinn. Samkvæmt reglunum má setja nagladekkin undir um næstu mánaðamót en aðstæður ráða líka.

Mikil örtröð hefur verið á hjólbarðarverkstæðum, svo mikil að hjá Sólningu sögðu menn að ekki væri víst að þeir sem kæmust inn kæmust út aftur, slík væri traffíkin á stæðinu við húsið.

Þrátt fyrir snjóinn og hálkuna hefur umferðin gengið vel og svo til áfallalaust fyrir sig. Fjórir árekstrar urðu í morgun, enginn þeirra alvarlegur að sögn lögreglunnar. Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingur á Stöð 2, segir í að í dag megi búast við snjómuggu en það breytist líklega í slyddu eða jafnvel rigningu eftir því sem líður á daginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×