Skoðun

Verðtrygging

Gunnar Tómasson skrifar

Árið 1983 var vísitölutrygging launa afnumin til að koma böndum á óðaverðbólgu sem keyrð var áfram af útlánaþenslu bankanna og tvíefld með samspili vísitölutryggðra launa og verðtryggðra lána. Hins vegar var ekki snert við verðtryggingunni. Þá um haustið spurði ég þáverandi fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, hvers vegna verðtrygging lána hefði ekki verið afnumin. Albert svaraði að ráðgjafar stjórnvalda hefðu mælt gegn því þar sem verðtrygging væri samningsbundin. Líkt og vísitölutrygging launa!

Á þessum árum vann ég sem hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þegar ég frétti af afnámi vísitölutryggingar launa og áframhaldandi verðtryggingu skrifaði ég bréf til áhrifamanns í íslenzku samfélagi, þar sem ég gagnrýndi harðlega aðgerðir stjórnvalda og sagði þær vera herfilegustu hagstjórnarmistök frá upphafi lýðveldisins. Hér væri tjaldað til einnar nætur.

Ástæðan var sú að verðtrygging er skálkaskjól stjórnvalda sem hafa hvorki haft vilja né getu til að stjórna peningamálum Íslands. Stjórnvalda sem létu það viðgangast að útlán bankanna jukust um 3450% (þetta er ekki ritvilla) áratuginn 1970-1979 og um nánast sama hlutfall á árunum 1980-1989. Þótt árin eftir 1983 hafi verið skuldsettum heimilum erfið, gætu þau orðið barnaleikur í samanburði við þær þrengingar sem nú blasa við.

Vandinn nú er þeim mun erfiðari úrlausnar að á síðustu 25 árum hefur lífeyrissjóðakerfi landsmanna dafnað í skálkaskjóli stjórnvalda sem um langt árabil hafa látið gott heita að útlán héldu áfram að vaxa með margföldum vaxtarhraða þjóðarframleiðslu. Samtímis hefur orðið breyting á tekjuskiptingu þannig að greiðslubyrði banka- og lífeyrissjóðslána hefur hækkað sem hlutfall af rauntekjum þeirra sem hafa borið skarðan hlut frá borði.

Það er skammgóður vermir fyrir lántakendur að verðbætur leggjast á höfuðstól en koma ekki til innheimtu strax. Það verðbólguskot sem nú er væntanlega á byrjunarstigi, ört vaxandi atvinnuleysi og minnkandi rauntekjur ásamt fallandi eignaverði mun sýna að verðtrygging er argvítugur staðgengill fyrir trausta og skilvirka stjórn íslenzkra peningamála. Hér er verk að vinna fyrir stjórnvöld og lífeyrissjóði.

Höfundur er hagfræðingur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Creditinfo

Daníel Freyr Rögnvaldsson skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.