Innlent

Námsmaður segir allt betra en að millifæra íslenskar krónur út

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Það er allt betra en að þurfa að millifæra íslenskar krónur til Danmerkur," segir Reynir Hilmisson, meistaranemi í hljóðfræði við Danmarks Tekniske Universitet. „Ég þarf kannski ekkert endilega á þessu fé að halda þegar ég er búinn með námið, ég þarf á því að halda núna. Ég þarf að borga reikningana mína þennan mánuð eins og allir aðrir," segir Reynir enn fremur og bætir því við að staða námsmanna erlendis, sem þiggi námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, sé allískyggileg.

Hann segir LÍN veita lán í upphafi náms sem svo sé greitt út á námstímanum í formi yfirdráttar hjá viðskiptabanka viðkomandi námsmanns. „Mánaðarlega millifæri ég svo einhverja upphæð þaðan til að borga reikningana mína og þar sem ég var fyrir nokkrum mánuðum að millifæra 9.000 danskar krónur er ég núna að millifæra 5.800 krónur þannig að ég fæ ekki neitt neitt fyrir námslánin í dag," segir Reynir.

Eins gott að sýna 100% námsárangur

„Nú skulda ég bankanum þann yfirdrátt sem ég er búinn að fá, segjum að það sé 700.000 kall. Það sem ég fékk lánað upphaflega var út frá þáverandi gengi. Svo er gengið reiknað upp á nýtt og þá er þessi 700.000 kall orðinn eitthvað meira eða eitthvað minna og sú upphæð er það sem ég fæ millifært í dag. Í lok annar þarf ég svo að sýna 100 prósent námsárangur til að fá 100 prósent lán," segir Reynir og bætir því við að íslenskum námsmönnum sé eins gott að vera iðnir við kolann ætli þeir ekki að lepja dauðann úr skel.

„Íslenskir námsmenn hérna bölva því núna í sand og ösku að hafa ekki vinnu samhliða skólanum af því að þeir hafa ekki efni á að borga húsaleiguna. Ég sá fram á að ég yrði að fá mér vinnu með skólanum en það þýðir auðvitað að dagurinn verður rosalega langur og maður er ansi þreyttur við lok hans," segir Reynir sem starfar hjá fyrirtæki sem annast ýmsar hljóðmælingar og tengist þar með námi hans. „Svo eru margir sem fá sér vinnu við uppvask eða eitthvað slíkt fyrir 100 kall á tímann [sem eru reyndar rétt rúmar 2.000 íslenskar krónur þegar þetta er skrifað]," segir Reynir að lokum.

Lánsloforð LÍN gengistryggð

„Lánsloforðið er gengistryggt," segir Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, inntur eftir því hvernig sjóðurinn bregðist við vandræðum skjólstæðinga sinna erlendis. „Almennt er það þannig að lán til námsmanna erlendis eru reiknuð út í mynt námslands og ákveðin þannig í upphafi skólaárs. Svo þegar kemur að útborgun í lok annar eru lánin borguð út á gengi útborgunardagsins," útskýrir Steingrímur.

„Þegar krónan veikist fá menn borgaðar út fleiri krónur og skuldin í sjálfu sér hækkar. Námsmaðurinn fær hins vegar sömu upphæð í erlendri mynt og upphaflega var lofað, það er að segja jafnmargar danskar krónur eða dollara og svo framvegis," segir Steingrímur.

„Skiptinemar eru hins vegar stækkandi hópur, það er að segja þeir sem eru í skóla hér en fara út í skemmri tíma sem skiptinemar. Þeir hafa fengið sín lán reiknuð út í íslenskum krónum og þeir hafa verið að bera sig illa. Það er kannski sambærilegur vandi við þann sem íslenskir námsmenn almennt standa frammi fyrir. Lán skiptinemanna eru ekki gengistryggð en dvöl þeirra er líka að jafnaði skemmri," segir Steingrímur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×