Erlent

Þjófar herja æ meir á sýndarheima

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Úr EVE Online.
Úr EVE Online.

Það hefðu þótt tíðindi fyrir áratug að sýndarheimar tölvuleikja gætu orðið vettvangur glæpa og raunverulegra þjófnaða, en nú er öldin önnur.

Óprúttnir aðilar renna í æ ríkari mæli hýru auga til verðmæta þeirra sem skapast í tölvuleikjum sem leiknir eru á Netinu og skirrast ekki við að brjótast inn í notendareikninga heiðarlegra spilara og freista þess að hrifsa til sín þær einingar sem notaðar eru sem gjaldeyrir í leikjunum.

Slíkum einingum má nefnilega oft umbreyta í raunverulega peninga. Margir hváðu þegar út spurðist að búlgörsk fjölskylda léki tölvuleikinn EVE Online nánast allan sólarhringinn og ynni hörðum höndum fyrir gjaldmiðlinum ISK sem notaður eru í leiknum. Þessi gjaldmiðill gekk svo kaupum og sölum á uppboðsvefnum eBay þar sem Bandaríkjamenn, sem kusu að stytta sér leið í EVE Online, keyptu hann dýrum dómum.

Samkvæmt reglum leiksins er bannað að höndla með gjaldmiðilinn og þeir sem uppvísir verða að slíku eiga yfir höfði sér leikbann auk þess sem CCP hefur samið við eBay um að fjarlægja slíkar auglýsingar af vefnum. Dæmið sýnir þó glöggt hvernig færa má verðmæti úr tölvuleikjum yfir í veraldlegan auð. Óvandaðir aðilar sæta því færis að stela slíku sýndarfé líkt og öðrum fjármunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×