Viðskipti innlent

Óvíst með nýtt yfirtökutilboð í Woolworths

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir ekki víst að annað yfirtökutilboð verði gert í bresku verslanakeðjuna Woolworths sem Baugur á tíu prósenta hlut í.

Greint var frá því í gær að Woolworths hefði hafnað tilboði Malcolms Walker, stofanda Iceland, og ýmissa fjárfesta, þar á meðal Baugs,  í félagið. Töldu forsvarsmenn Woolworths eignir félagsins vanmetnar. Þá hefði tilboðið falið í sér flókna endurskipulagningu á félaginu sem hefði verið erfitt að framkvæma. Woolworths rekur um 800 verslanir í Bretlandi.

Greint er frá því í breska blaðinu Guardian í dag að bréf í Woolworths hafi hækkað um 16,5 prósent vegna vangaveltna um annað tilboð frá hópnum. Rekstur Woolworhs hefur ekki gengið vel og sagði greiningaraðilinn Morgan Stanley í fyrra að fyrirtækið gæti hugsanlega verið verðlaust, en hlutabréf hafa fallið um 70 prósent á liðnu ári.

„Það er aðkallandi að gera eitthvað. Við teljum okkur getað rekið þetta miklu betur en nú er gert og miðað við að afkoman hefur versnað mikið að undanförnu þá er ljóst að breytinga er þörf," segir Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs.

Aðspurður hvort von sé á öðru tilboði í Woolworths segir Gunnar það vera óvíst. „Við munum skoða þetta ofan í kjölinn en það er ekki víst að við gerum annað tilboð," segir Gunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×